Smíða átti 102 metra langa brú yfir Steinavötn, í stað þeirrar sem eyðilagðist í miklum flóðum haustið 2017, en einnig 46 metra brú yfir Fellsá vestast í Suðursveit, til að leysa af einbreiða brú. Þetta var eitt stærsta útboðsverk ársins og það langstærsta í brúarsmíði, verkefni upp á um einn milljarð króna.
Frestur til að skila inn tilboðum rann út klukkan 14 í dag hjá Vegagerðinni en ekkert barst. Sama gerðist í útboði brúar yfir Kvíá í Öræfasveit í síðustu viku.

Vonbrigði?
„Ja, ekki stór, þannig séð. Það kemur okkur aðeins á óvart að verktakar séu ekki að sýna meiri áhuga. En á móti kemur að við sýnum því skilning. Þetta er kannski ekki besti tíminn yfir hásumarið að ráðast í svona samninga,“ segir Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar.
„Og síðan getur bara verið, eins og ég segi, að menn hafi nóg að gera, - í augnablikinu.“

„Við erum hvergi bangnir og við bjóðum bara út núna í haust. Og ég er alveg viss um að þá fáum við tilboð.“
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: