Í umsögn Rauða krossins sem birt var í dag er lýst yfir stuðningi við frumvarpið og þær breytingar á löggjöfinni sem felast í frumvarpinu. Það sé þörf á aukinni og bættri þjónustu fyrir þann jaðarsetta hóp sem notast við ávana- og fíkniefni og nauðsynlegt sé að draga úr skaðlegum afleiðingum slíkrar vímuefnanotkunar.
Sjá einnig: Frumvarp um örugg neyslurými sprautufíkla verður líklega að lögum
Rauði krossinn starfrækir til að mynda skaðaminnkunarverkefnin Frú Ragnheiði í Reykjavík og Ungfrú Ragnheiði á Akureyri ásamt því að vinna að skaðaminnkun með rekstri Konukots. Í umsögninni segir að rúmlega 450 einstaklingar hafi sótt þjónustu Frú Ragnheiðar árið 2018 sem sé sjö prósenta fjölgun frá árinu 2017. Þá hafi verkefnið jafnframt fargað vel yfir 2.600 lítrum af notuðum sprautubúnaði á árinu.
„Rauði krossinn er hlynntur því að stjórnvöld leiti leiða til að auka þjónustu við það fólk sem notar vímuefni svo draga megi úr skaðlegum afleiðingum slíkrar vímuefnanotkunar. Í öðrum löndum þar sem slík rými eru í notkun hafa þau sannað gildi sitt og þá sérstaklega fyrir einstaklinga sem nota vímuefni um æð og hafa ekki fasta búsetu,“ segir í umsögninni.
Óvíst hvernig lögregla geti stutt við starfsemi neyslurýmis
Nauðsynlegt er að rýminu verði fundið húsnæði sem er ekki tengdur öðrum úrræðum fyrir vímuefnanotendur, heimilislausa eða fólk sem gæti á einhvern hátt tengst eða nýtt sér þjónustu neyslurýmis að mati Rauða krossins. Með því væri hægt að komast hjá því að mögulegir notendur muni forðast að leita til þess vegna þess að það tengist um of ákveðnum hópum.Þá kemur fram að ekki sé víst hvernig lögregla eigi að geta stutt við starfsemi neyslurýmis og tryggt öryggi þeirra sem þangað leita á sama tíma og lögreglu sé ætlað að vinna gegn brotastarfsemi tengdri ávana- og fíkniefnum. Því sé nauðsynlegt að tryggja skýrar lagaheimildir lögreglu svo ekki þurfi að treysta á mat lögreglu hverju sinni þar sem friðhelgin þurfi að vera tryggð. Lögreglan hefur áður gagnrýnt að svæði um neyslurými verði „refsilaus rými“ þar sem neysla fíkniefna verði heimil þar sem ekki sé heimild fyrir slíku í lögum.
„Rauði krossinn telur mikilvægt að þær breytingar sem eru fyrirhugaðar á lögum um ávana- og fíkniefni er varða rekstur og starfsemi neyslurýma muni að auki taka tillit til núverandi skaðaminnkandi úrræða sem þjónusti einstaklinga sem nota vímuefni í æð og eru heimilislausir,“ segir í umsögninni en Rauði krossinn lýsir sig jafnframt fúsan til samstarfs og veita þann stuðning sem félagið og starfsmenn þess geta veitt.