Gert er ráð fyrir því að haldið verði málþing hér á landi um tvíhliða viðskipti Bandaríkjanna og Íslands með komu Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til landsins í byrjun september. Þetta kemur fram í samtali Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra við fréttastofu.
„Það er unnið af okkar viðskiptaskrifstofu í utanríkisþjónustunni og Íslandsstofu, og með þátttöku bæði bandarískra og íslenskra fyrirtækja.“
Guðlaugur segir að varaforsetinn muni einnig kynna sér varnartengda starfsemi hér á landi, en ekki sé gert ráð fyrir neinum formlegum fundum um varnarmál milli Pence og íslenskra ráðamanna.
Sjá einnig: Hvíta húsið staðfestir Íslandsför Mike Pence
Áætlað er að Pence komi til landsins 4. september næstkomandi og verður heimsókn hans hluti af Evrópureisu varaforsetans.
Greint var frá opinberu heimsókninni á vef Hvíta hússins í síðustu viku. Þar segir að Pence muni í viðræðum sínum við íslenska ráðamenn leggja áherslu á mikilvægi Íslands þegar kemur að Norðurslóðamálum, leiðir til að stemma stigu við hernaðarumsvifum Rússa á svæðinu, sem og leiðir til að auka viðskipti og fjárfestingar á milli Íslands og Bandaríkjanna.
