Félag eldri borgara hefur tilkynnt kaupendum tveggja íbúða, sem höfða mál á hendur félaginu, að félagið hyggst nýta kauprétt sinn og leysa til sín íbúðirnar sem deilt er um. Ákvörðunin er talin óhjákvæmileg til að tryggja hagsmuni félagsins.
„Við teljum okkur vera búin að ganga eins langt og mögulegt er til að fá aðila til að skrifa undir kaupsamninga. Nú erum við að fara að leita þess neyðarréttar sem okkur ber samkvæmt kaupsamningi og gengur út á það að við munum kaupa íbúðirnar aftur,“ sagði Sigríður Snæbjörnsdóttir, varaformaður félags eldri borgara.
Félagið mun ekki nýta kauprétt gagnvart þeim sem undirritað hafa skilmálabreytingu við kaupsamning. En líkt og greint hefur verið frá lagði Félag eldri borgara fram sáttartilboð þar sem krafa félagsins, um aukagreiðslu vegna aukakostnaðar sem varð til vegna vanáætlunar byggingarnefndar félagsins, yrði lækkuð um 37 prósent. 32 kaupendur af 65 hafa samþykkt breytinguna.
Tveir kaupendur ákváðu að fara dómstólaleiðina en þeir telja að upphaflegur kaupsamningur eigi að gilda og krefjast þau að fá afhenda lykla að íbúðum þeirra. Þinghald í málinu fer fram á miðvikudaginn.
„Við getum ekki látið þessa tvo aðila í rauninni ganga fyrir hagsmunum alls hópsins og félagi sem telur tólf þúsund félagsmenn þannig við erum að reyna að koma í veg fyrir að félagið fari í þrot eða verði leyst upp,“ sagði Sigríður.
Lögmaður félags eldri borgara mun í þinghaldinu leggja fram greinargerð þar sem óskað verður eftir því að kröfum kaupendanna verði vísað frá þar sem þeir eigi ekki, eftir nýtingu kaupréttarins, lögvarða hagsmuni af innsetningargerðinni, enda séu þeir þá ekki aðilar að málinu.
„Við erum enn að vona að þessir tveir aðilar gangi til samninga við okkur, þeim stendur allt til boða sem hinum stendur til boða,“ sagði Sigríður.