Sigurborg segir að ákvörðunin um að ráðast í framkvæmdir á Hverfisgötu hafi verið tekin síðasta vetur en tilkynningar bárust verslunar- og veitingahúsaeigendum, í ákveðnum tilfellum, þremur dögum áður en framkvæmdir hófust. Hefði upplýsingagjöf verið háttað eins og gert er ráð fyrir hefði verslunar- og veitingahúsaeigendum á Hverfisgötu verið greint frá framkvæmdunum vikum eða mánuðum áður en raunin varð.
Sjá einnig: Mun fleiri veitingastaðir hafi opnað heldur en lokað síðustu 18 mánuði
„Við höfum ákveðið verklag varðandi tilkynningar og samvinnu atvinnulífsins í miðbænum og borgarinnar. Þetta bara klikkaði í þetta skiptið, það verður bara að viðurkennast. Mér þykir það mjög miður,“ sagði Sigurborg Ósk.
Rekstrarumhverfi almennt gott í miðbænum
Spurð hvort allt kynningarferlið hafi misfarist segir Sigurborg að svo hafi ekki verið. Skilti hafi verið sett upp, fréttatilkynningar hafi verið sendar út og unnið hafi verið að því að halda gönguleiðum opnum. Hins vegar hefði mátt gera betur enda hafi borgin mikla reynslu af framkvæmdum sem þessum.„Við tökum fulla ábyrgð á þessu en það er ekki bara einn þáttur sem segir til um það hvort að fyrirtæki geti haldið áfram rekstri,“ segir Sigurborg og bætir við að í miðbænum sé almennt gott rekstrarumhverfi og verslunarpláss í miðbænum séu mjög eftirsótt. Hæstu fasteignaskattarnir séu hins vegar innheimtir í miðbænum og það geti haft áhrif á rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja í miðbæ Reykjavíkur.

Hlusta má á umræður Sigurborgar og Kristjáns í spilaranum hér að neðan.