Erlent

Vildi nota kjarnorkusprengjur á fellibylji

Stefán Ó. Jónsson og Sylvía Hall skrifa
Donald Trump Bandaríkjaforseti bar hugmyndina undir ráðgjafa sína.
Donald Trump Bandaríkjaforseti bar hugmyndina undir ráðgjafa sína. WH/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti er sagður hafa stungið upp á því á fundi með hernaðarráðgjöfum sínum að sleppa kjarnorkusprengjum á fellibylji til að splundra þeim áður en þeir ná á land í Bandaríkjunum. Mun forsetinn hafa stungið upp á því oftar en einu sinni.

Að sögn bandaríska miðilsins Axios, sem hefur þetta eftir heimildarmönnum sem sátu fundinn, kom uppástunga forsetans eftir að háttsettir yfirmenn varnarmálaráðuneytisins ræddu við forsetann um þá ógn sem stafaði af náttúruhamförum á borð við fellibylji. Voru viðbrögð ráðgjafa hans á þá leið að möguleikinn yrði kannaður, án þess þó að ábyrgjast neitt.

„Þeir byrja að myndast fyrir utan strendur Afríku, þegar þeir ferðast yfir Atlantshafið, þá köstum við sprengju í auga fellibylsins og hún sundrar honum. Af hverju getum við ekki gert það?“ er haft eftir forsetanum.

Þrátt fyrir að hugmyndir um að varpa kjarnorkusprengjum á fellibylji hafi reglulega verið viðraðar allt frá forsetatíð Eisenhowers eru þær þó hvorki taldar líklegar til árangurs, né góðar fyrir umhverfið.

Náttúruvísindatímaritið National Geographic birti umfjöllun í tímariti sínu stuttu eftir að valdatíð Trump hófst þar sem nákvæmlega þessi hugmynd var tekin fyrir. Greinin bar fyrirsögnina „Ótrúleg saga mjög vondrar hugmyndar“ og kom þar fram að hugmyndin væri, líkt og titillinn gaf til kynna, ekki svo góð.


Tengdar fréttir

Mál­verk af Trump vekur kátínu net­verja

Íhaldssami listamaðurinn Jon McNaughton birti á þriðjudag nýjasta verk sitt í röð málverka sem öll tengjast slagorði forsetans MAGA (Gerum Bandaríkin frábær aftur) á einn eða annan hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×