„Það var ágætt að Anna Rún og Elín eru ekki úr kvikmyndageiranum. Þótt í rauninni sé ekki mikill munur á því að vera í myndlist og kvikmyndum. En ég gerði mér kannski betur grein fyrir því hvað við vorum að fara út í. Það gera sér nefnilega fæstir grein fyrir því hvað það fylgir mikil vinna heimildarmyndagerð og hún tekur tíma. Efnið þarf að mótast og meltast, og þetta er mjög langt ferli,“ segir Hanna Björk.
„Það voru barneignir sem sameinuðu okkur fyrir nokkrum árum, við vorum í mömmuklúbbi, mömmujóga og í ungbarnasundi og reynslan af því að vera hjá Snorra situr enn í mér sjö árum seinna. Þetta er svo stór upplifun,“ segir Anna Rún um tengslin á milli þeirra og upphaf verksins.

Þær ræddu við fræðimenn um aðferðir Snorra og það sem á sér stað á milli foreldra og barna þeirra í lauginni.
„Við ræddum til dæmis við Colwyn Trevarthen, prófessor í sálfræði barna og sálfræðilegri líffræði, Hermund Sigmundsson, prófessor í sálfræði við Háskólann í Þrándheimi, og Sæunni Kjartansdóttur frá Miðstöð foreldra og barna. Við þurftum svolítið að kafa ofan í starfið frá sjónarhóli fræðimanna og það var virkilega áhugavert að sjá þeirra viðbrögð. Þeim fannst þetta svo merkilegt,“ segir Hanna Björk.
Anna Rún tekur undir. „Colwyn hefur starfað í þessum bransa í fjörutíu ár og fannst stórmerkilegt að fjögurra mánaða gamalt barn gæti staðið óstutt í lófa. Honum fannst starf Snorra svo magnað að hann bætti bókarkafla um hann í nýja bók sína. Sæunn talaði hins vegar um að henni fyndist ekki skipta öllu máli hvort barn geti staðið í lófa eða farið í kollhnís. Henni fannst gleði og stolt foreldranna og viðbrögð barnsins við foreldrum sínum vera það mikilvægasta. Ungbarnasundið hjálpi foreldrum að mynda tengsl við börnin sín í ögrandi og örvandi umhverfi.“