Innlent

Rán í miðborg Reykjavík telst upplýst

Eiður Þór Árnason skrifar
Ræninginn, sem var karlmaður um þrítugt, var handtekinn af lögreglu fyrr í vikunni og játaði á sig verknaðinn við yfirheyrslur.
Ræninginn, sem var karlmaður um þrítugt, var handtekinn af lögreglu fyrr í vikunni og játaði á sig verknaðinn við yfirheyrslur. Vísir/vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur upplýst rán sem framið var í fyrirtæki í miðborginni í byrjun mánaðarins, en þar var starfsmanni ógnað og hótað með mjög grófum hætti áður en ræninginn komst undan með talsvert af reiðufé. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

Ræninginn, sem var karlmaður um þrítugt, er sagður hafa verið handtekinn af lögreglu fyrr í vikunni og játað á sig verknaðinn við yfirheyrslur. Búið er að endurheimta stóran hluta af ránsfénu og segir lögregla að starfsmaðurinn umræddi hafi brugðist hárrétt við en hafi eðlilega verið brugðið.

Í tilkynningunni segir að lögreglan hafi haft mjög lítið til að byggja á við rannsókn málsins. Hún hafi strax ákveðið að kalla út sporleitarhunda sér til aðstoðar við rannsóknina og var einnig farið yfir mikið myndefni úr eftirlitsmyndavélum í miðborginni. Það hafi orðið til þess að lögreglan fékk vísbendingar sem leiddi að lokum til handtöku ræningjans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×