Fyrrverandi gjaldkeri Ungmennafélags Grundarfjarðar, UMFG, hefur verið dæmdur í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fjárdrátt og peningaþvætti. UMFG kærði manninn þann 2. ágúst 2018 vegna gruns um brot og fór málið í framhaldinu í ákæruferli hjá héraðssaksóknara.
Maðurinn sat í stjórn UMFG um margra ára skeið og gegndi meðal annars embætti gjaldkera fram til ársins 2015 í það minnsta. Fjárdrátturinn hófst í mars árið 2011 og stóð yfir þar til í október 2017. Maðurinn tók reglulega tugi þúsunda króna út af reikningum félagsins og dró hann mest að sér 250 þúsund krónur í einstaka færslu.
Í heildina dró maðurinn sér rúmar 12 milljónir króna í 248 millifærslum. Þá færði hann peninga út af fjórum mismunandi reikningum félagsins ýmist yfir á eigin reikning eða reikninga ófjárráða dóttur sinnar.
Í dómi Héraðsdóms Vesturlands segir að gjaldkerinn hafi brotið gróflega gegn þeim trúnaði sem honum hafi verið sýndur. Á hinn bóginn er bent á að hann sé með hreint sakavottorð auk þess sem hann játaði skýlaust brot sitt og endurgreiddi fjármunina.
Gjaldkerinn braut gróflega gegn trúnaði

Tengdar fréttir

Fyrrverandi gjaldkeri UMFG ákærður fyrir fjárdrátt
Fyrrverandi gjaldkeri Ungmennafélags Grundarfjarðar, UMFG, hefur verið ákærður af héraðssaksóknara fyrir fjárdrátt.

UMFG kærir fyrrverandi gjaldkera fyrir fjárdrátt
Héraðssaksóknari hefur málið til rannsóknar.