Með þessu er Trump sagður svíkja Kúrda, eina mikilvægustu bandamenn Bandaríkjanna í baráttunni við hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki. Forsetinn sagði í gær að Bandaríkin hefðu verið of lengi í Sýrlandi. Ef Tyrkir gerðu eitthvað sem honum þóknaðist ekki myndi Trump gjöreyðileggja tyrkneska hagkerfið.
Mótmæli
Þeim ummælum var einmitt mótmælt í tyrknesku höfuðborginni Ankara í dag. „Við höfum safnast saman til að mótmæla því sem Bandaríkjaforseti tísti í gær, að hann myndi eyðileggja Tyrkland,“ sagði Aykur Dis, einn mótmælanda, í dag.Kúrdar í Sýrlandi eru ekki síður ósáttir, en þó af annarri ástæðu. Þeir líta svo á að Trump hafi stungið þá í bakið og óttast blóðbað. Særðir hermenn mótmæltu við skrifstofur Sameinuðu þjóðanna í Qamishli í Sýrlandi.
„Við, íbúar norðausturhluta Sýrlands, köllum eftir því að alþjóðasamfélagið, mannúðarsamtök og Sameinuðu þjóðirnar skerist í leikinn,“ sagði Muthanna al-Aqli, hermaður í sveitum Kúrda.
Vígbúnaður og umræður
Mikill vígbúnaður er nú á landamærum Sýrlands og Tyrklands. Þar hefur töluverð hernaðaruppbygging átt sér stað undanfarnar vikur. Hersveitir hliðhollar Tyrkjum í Sýrlandi hafa svo verið við stífar æfingar frá því tilkynnt var um að aðgerðin væri yfirvofandi.Ákvörðun Trumps um að draga hermenn frá Sýrlandi verður til umræðu á næsta ríkisstjórnarfundi, síðar í vikunni. Það sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í svari við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, á Alþingi í dag.