Innlent

Bjartviðri í dag en næsta lægð handan við hornið

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Það verður hæglætisveður í dag og víða á morgun en næsta lægð er væntanleg á sunnudag.
Það verður hæglætisveður í dag og víða á morgun en næsta lægð er væntanleg á sunnudag. Vísir/vilhelm
Léttskýjað og bjartviðri, með hægri norðaustanátt, verður á landinu í dag, fyrir utan dálitlar skúrir eða slydduél norðaustantil. Eftir hádegi má svo búast við því að áfram verði léttskýjað í breytilegri átt en að mestu skýjað austanlands.

Þá er von á stöku skúrum á Suðurlandi seinnipartinn og í kvöld. Kalt er í veðri en hiti verður á bilinu eitt til sjö stig í dag, hlýjast syðst, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Á morgun má búast við áframhaldandi hæglætisveðri víðast hvar en skýjað og skúrir sunnan- og vestanlands. Á sunnudag er síðan von á næstu lægð, með suðvestanstrekkingi og rigningu í öllum landshlutum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Hæg vestanátt og víða bjartviðri, en skýjað um vestanvert landið, og dálítil væta á Suðurlandi. Hiti 1 til 6 stig yfir daginn.

Á sunnudag:

Suðvestan 8-13 m/s og rigning, en hægari og þurrt austanlands. Hiti 0 til 7 stig, hlýjast syðst.

Á mánudag:

Vestlæg átt, 8-13 m/s og rigning í flestum landshlutum. Hiti breystist lítið. Hvessir af norðri seinnipartinn með kólnandi veðri og snjókomu norðantil, fyrst á norðvesturlandi.

Á þriðjudag:

Útlit fyrir hvassa norðanátt með snjókomu um norðanvert landið, en dregur úr úrkomu eftir hádegi. Þurrt og yfirleitt bjart sunnantil. Frost 1 til 6 stig, en hiti um og yfir frostmarki sunnanlands.

Á miðvikudag og fimmtudag:

Norðanátt og él norðantil á landinu en léttskýjað á suðurhelmingi landsins. Frost 2 til 7 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×