Barclay greindi þingnefnd frá því að forsætisráðherrann muni fara að þeim lögum sem þingið samþykkti í síðasta mánuði og er ætlað að koma í veg fyrir að Bretlands gangi úr sambandinu í lok mánaðar án samnings.
Lögin sem um ræðir neyða Johnson til að fara fram á þriggja mánaða frestun á útgöngu sem myndi þýða að Bretland gengi úr ESB síðasta dag janúarmánaðar 2020.
Johnson hefur ítrekað lofað því að koma Bretlandi út úr ESB þann 31. október, með eða án samnings. Myndi hann frekar vilja „vera dauður í skurði“ en að óska eftir frekari frestun.
Viðræður í Downingstræti
Leiðtogar Lýðræðislega sambandsflokksins (DUP) hafa átt í viðræðum við Johnson í Downing stræti 10 í dag til að ræða mögulegan útgöngusamning, en DUP ver stjórn Íhaldsflokksins falli.Johnson á nú í kapphlaupi við tímann þar sem hann reynir að ná fram samningi fyrir leiðtogafund ESB á fimmtudaginn. Enn er deilt um fyrirkomulag varðandi tolla og skattamál, sem og hvernig málum skuli háttað á landamærum Írlands og Norður-Írlands.
Johnson verður að ná að sannfæra þingmenn DUP og Brexit-sinna í Íhaldsflokknum um að samþykkja samninginn þannig að náist að koma honum í gegnum þingið.