Fulltrúar fyrrum NFL-leikmannsins Colin Kaepernick sendu frá sér yfirlýsingu í gær til þess að koma ákveðnum hlutum á hreint er varðar þennan fyrrum leikstjórnanda San Francisco 49ers.
Þessi 31 árs gamli kappi hefur ekki spilað í deildinni síðan árið 2016 en þá byrjaði hann að fara á hné í þjóðsöngnum til þess að mótmæla misrétti í Bandaríkjunum. Sérstaklega var hann þó að mótmæla því hvernig lögreglan kom fram við blökkumenn í landinu.
Þó svo Kaepernick hafi náð sáttum við deildina þá ætlar augljóslega ekkert lið að gefa honum tækifæri. Ekki eitt lið hefur svo mikið sem boðið honum til æfinga.
Hann fór í heimsókn til Seattle Seahawks og eftir þá heimsókn sagði þjálfari Sjóhaukanna, Pete Carroll, að Kaepernick ætti að vera byrjunarliðsmaður í deildinni.
Því hefur verið logið að félög hafi rætt við leikmanninn og leyft honum að æfa. Það er ekki rétt segja fulltrúar leikmannsins. Ekkert er heldur til í því að Kaepernick sé klár með einhverjar launakröfur.
Fulltrúar hans hafa sett sig í samband við öll félög deildarinnar en fá varla svar. Kaepernick taldi eigendur deildarinnar vera í samsæri um að gefa honum ekki tækifæri en náði sáttum. Það hefur engu breytt. Þeir ætla ekki að gefa honum tækifæri. Sama hversu margir menn í sömu stöðu meiðast.
