Fram kemur í tilkynningu TM til Kauphallarinnar að kaupverðið sé 9250 milljónir króna og þar að auki muni TM greiða hagnað Lykils á árinu 2019 til seljenda, eignarhaldsfélagsins Klakka ehf. sem að stærstum hluta í eigu bandaríska vogunarsjóðsins Davidson Kempner.
Eigið fé Lykils var næstum 11,7 milljarðar um mitt ár 2019. Hlutfall kaupverðs á móti áætluðu eigin fé í árslok 2019 er 0,82 miðað við áætlanir um afkomu Lykils á árinu 2019. Ástæða síðustu viðræðuslita var einkum sú að tilboð TM, sem hljóðaði upp á 10,6 milljarða króna, eða sem jafngilti genginu 0,8 miðað við eigið fé félagsins á þeim tíma, var ekki í samræmi við væntingar stjórnenda og eigenda Lykils.
Í tilkynningu TM segir að kaupin verði greidd með handbæru fé og verði fjármögnuð með sölu á eignum og útgáfu á nýju hlutafé fyrir allt að 3 milljarða króna. Þá hafi TM tryggt sér lánsfjármögnun að fjárhæð allt að 3.000 m.kr. vegna viðskiptanna.
Samlegðaráhrif og hagnaðaraukning
„Kaupin á Lykli eru í samræmi við stefnu TM og eftirleiðis mun starfsemi félagsins skiptast í þrjár jafn mikilvægar stoðir, vátryggingar, fjármögnun og fjárfestingar. Tækifæri eru til að bæta arðsemi af grunnrekstri Lykils. TM áætlar að hægt verði að ná fram töluverðum samlegðaráhrifum, bæði í tekjum og kostnaði, fjölga fjármögnunarkostum og ná niður fjármagnskostnaði. Þá er stefnt að því að gera fjármagnsskipan hagkvæmari,“ segir í tilkynningunni.Þar er bætt við að Tryggingamiðstöðin telji kaupin vera hagfelld fyrir hluthafa, því áætlanir geri ráð fyrir að hagnaður á hvern hlut muni aukast um 20 til 30 prósent á komandi árum.
Boðað verður til hluthafafundar hjá TM þar sem nánar verður gert grein fyrir viðskiptunum og óskað eftir heimild hluthafafundar til útgáfu nýs hlutafjár. Á fundinum verður lögð fram tillaga um breytingu á tilgangi félagsins. TM er í dag vátryggingafélag, en verði tillagan samþykkt verður TM móðurfélag tveggja dótturfélaga, vátryggingafélags og fjármögnunarfélags.