Innlent

Reyndi að ryðjast inn á tónleika Scooter

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Teknóhljómsveitin Scooter tróð upp í Laugardalshöll í gær.
Teknóhljómsveitin Scooter tróð upp í Laugardalshöll í gær.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í gær ofurölvi einstakling fyrir utan Laugardalshöllina þar sem tónleikar Scooter fóru fram.

Að því er fram kemur í dagbók lögreglu hafði lögregla haft ítrekuð afskipti af manninum þar sem hann var að reyna að ryðjast inn á tónleikana. Maðurinn var handtekinn og settur í fangageymslur lögreglu sökum ástands hans.

Alls voru 99 mál bókuð hjá lögreglu frá klukkan fimm síðdegis í gær til klukkan fimm í nótt en töluverður fjöldi ökumanna var stöðvaður á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt vegna gruns um ölvun við akstur.

Þar á meðal var sextán ára drengur sem gripinn var ölvaður akandi um á vespu í Kópavogi. Drengurinn var án ökuréttinda, hafði ekki hjálm og var á ótryggðu hjóli. Málið var afgreitt með aðkomu móður drengsins.

Þá var maður handtekinn í miðborg Reykjavíkur fyrir utan skemmtistað, grunaður um að hafa skallað dyravörð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×