Innlent

Lögðu á Lækjartorgi til að geta rokið í útköll

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglubílarnir fimm vöktu athygli vegfarenda í miðborginni í gær, enda ekki ætlast til þess að bílum sé lagt á Lækjartorgi.
Lögreglubílarnir fimm vöktu athygli vegfarenda í miðborginni í gær, enda ekki ætlast til þess að bílum sé lagt á Lækjartorgi. Vísir/kjartan
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gerir ekki athugasemd við að fimm lögreglubílum hafi verið lagt fyrir utan húsakynni Héraðsdóms Reykjavíkur við Lækjartorg í gær. Þar höfðu tugir lögreglumanna safnast saman til að sýna starfsbróður sínum stuðning, sem sýknaður var af ákæru um brot í starfi.

Útkallsbílunum fimm var lagt á göngusvæðið á Lækjartorgi meðan dómsuppkvaðning stóð yfir. Þar er alla jafna ólöglegt að leggja bífreiðum, að frátöldum veitingavögnum sem hafa til þess tilskilin leyfi. Samkvæmt 108 grein umferðarlaga er óheimil „stöðvun eða lagning ökutækis á gangstétt, gangstíg, umferðareyjum og svipuðum stöðum,“ og nemur sektin við brotinu 20 þúsund krónum. 

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri.Vísir/vilhelm
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að hún telji bílunum hafa verið lagt með þessum hætti til að bregðast við hugsanlegum útköllum. Gerð sé krafa um að lögreglumenn geti brugðist fljótt við þegar kallið kemur. Margir þeirra lögreglumanna sem mættu í héraðsdóm hafi verið á vakt á sama tíma og þeir hlýddu á dómsuppkvaðninguna yfir kollega sínum. Þeir hafi verið búnir talstöðvum og því hafi verið hægt að ná í þá.

Sigríður segir því engar athugasemdir hafa verið gerðar við mætingu lögreglumannanna. „Á meðan þú ert með talstöðina og ert ekki að vanrækja skyldur þínar,“ segir Sigríður í samtali við Morgunblaðið og bætir við að dómsuppsaga taki alla jafna ekki langan tíma. Dómsuppsaga gærdagsins tók um 10 mínútur.

Auk lögreglubílanna fimm vakti talsverða athygli að lögreglumennirnir í dómsalnum voru klæddir í einkennisbúninga sína. Það mega þeir aðeins gera ef þeir eru við skyldustörf. Sigríður Björk segist þó ekki geta útilokað að einhverjir þessara lögreglumanna hafi verið á frívakt, án þess þó að vita til þess að nokkur þeirra hafi brotið reglur um einkennisklæðnað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×