Ökumaður sem lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði um helgina viðurkenndi neyslu fíkniefna. Í bifreið hans fundust meint fíkniefni svo og á heimili hans, þar sem leit fór fram að fenginni heimild. Hann játaði að eiga efnin, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu á Suðurnesjum.
Enn fremur var farþegi í bifreið, sem lögregla stöðvaði vegna gruns um vímuefnaakstur, með piparúða og greiðslukort sem hann átti ekki. Sýnatökur bentu til þess að ökumaður bifreiðarinnar væri undir áhrifum fíkniefna, að því er segir í tilkynningu.
Þá framvísaði annar karlmaður fíkniefnum sem hann geymdi í bílskúr þegar lögregla ræddi við hann vegna óskylds máls.
Með piparúða og greiðslukort sem hann átti ekki
Kristín Ólafsdóttir skrifar
