Þrír eru ákærðir fyrir framleiðslu á rúmum átta kílóum af amfetamíni í sumarbústað í Borgarfirði, þeir Alvar Óskarsson, Einar Jökull Einarsson og Margeir Pétur Jóhannsson.
Eftir að málið hafði verið þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í september síðastliðnum barst lögreglu, saksóknara og verjendum í málinu bréf frá íslenskum manni sem ekki er ákærður í málinu. Sá sagðist bera alfarið einn ábyrgð á framleiðslunni ásamt ónefndum Pólverja.
Gaf Íslendingurinn sama framburð við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Hann sagði ástæðuna fyrir játningunni vera samviskubit sem hefði nagað hann.
![](https://www.visir.is/i/D8BBF1DEC23E42E1EFF5D004109ACC59D0E180B3B9E27F5DA1118A729F510BA0_713x0.jpg)
Ákæruvaldið telur frásögn félaga þeirra, sem segist bera ábyrgð á amfetamínframleiðslunni, ekki trúverðuga. Segir saksóknari að gögn málsins bendi til sektar mannanna þriggja sem eru ákærðir í málinu.
Ákærðu í málinu neita sök og segja félagann bera ábyrgð á amfetamínframleiðslunni. Er það dómara að meta hvort frásögn félagans sem vill taka sökina á sig sé trúverðug.
Vinur Franklíns tók á sig sök
Árið 1997 dæmdi Hæstiréttur Franklín Kristinn Steiner til 20 mánaða fangelsisvistar eftir að 252 grömm af amfetamíni, tæp 76 grömm af hassi og 6,7 grömm af maríjúana fundust á heimili hans í Hafnarfirði í apríl árið 1996.Franklín Steiner kannaðist ekki við fíkniefnin sem lögreglan fann við húsleitina. Hann taldi líkur á að félagi hans sem hafði lykil að heimili hans ætti efnin. Vinurinn mætti fyrir dóm og sagðist eiga efnin. Var vinurinn að lokum ákærður fyrir að hafa borið rangt fyrir dómi í málinu gegn Franklín Steiner.
![](https://www.visir.is/i/0A04DDDDCB673FDA84A2DCC9FD557698352D94716F5CB377EA49178D3230835B_713x0.jpg)
Ekki þótti þó nægilega sannað, gegn eindreginni neitun Franklíns og vinar hans, að háttsemi Franklíns hefði verið með þeim hætti og hann því sýknaður.
Sá umtalaðasti
Franklín Steiner var óumdeilanlega umtalaðasti maður undirheima Íslands á tíunda áratug síðustu aldar. Var Franklín jafnan sagður hafa verið undir verndarvæng lögreglunnar gegn því að veita upplýsingar um fíkniefnamál. Fékk hann meðal annars reynslulausn eftir að hafa afplánað helming fangelsisvistar, sem hann var dæmdur fyrir árið 1989, fyrir slíkar upplýsingar.![](https://www.visir.is/i/66C1684F8F1D4E9FCE98E192D715E1C6CCD94956F4D29DEA6EAAD280431C790F_713x0.jpg)
Frægt er þegar Franklín Steiner sagðist einfaldlega hafa verið heppinn í spilakössum þegar hann var spurður út í fimm milljóna króna tekjur sem hann hafði árið 1996.
Franklín Steiner lést 66 ára að aldri árið 2013.