Fimm vikur eru frá því hreppsnefnd Reykhólahrepps samþykkti breytingu á aðalskipulagi þess efnis að Vestfjarðavegur liggi um hinn umdeilda Teigsskóg. Skipulagsstofnun hefur núna staðfest aðalskipulagsbreytinguna og segir Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri Reykhólahrepps, stefnt að því að auglýsa hana á morgun.

Sjá hér: Vonast til að geta boðið út Teigsskógarleið fyrir árslok
Í byggðum á sunnanverðum Vestfjörðum óttast menn meiri tafir.
„Við trúum þessu ekki fyrr en vinnuvélarnar fara í gang. Við skálum ekki strax. Þegar vinnuvélarnar fara í gang, þá erum við farin að trúa þessu. Þetta er búið að vera svo langur ferill og mikil vonbrigði oft,“ segir Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðar.

„Það er engin ástæða til að ætla að menn séu að leggja niður vopn núna, því miður.“
-Finnst ykkur þetta ósanngjörn barátta þeirra sem eru á móti þessu?
„Já, mér finnst það. Við komumst hvergi héðan frá Tálknafirði eða Vesturbyggð án þess að fara malarvegi. Ég held að það séu engin byggð ból hér á Íslandi sem ekki komast til dæmis til Reykjavíkur, - ekki að minnsta kosti þorp af þessum stærðargráðum sem eru hérna, - án þess að þurfa að hossast yfir malarvegi,“ segir sveitarstjóri Tálknafjarðar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: