Nigel Farage, formaður Brexit-flokksins, segir að flokkur hans muni ekki bjóða fram í þeim 317 kjördæmum þar sem Íhaldsflokkurinn vann sigur í kosningunum 2017. Þingkosningar fara fram í Bretlandi 12. desember næstkomandi. Farage segir að flokkurinn muni bjóða fram á öllum öðrum kjördæmum.
Farage greindi frá þessu fyrr í dag. Sagðist hann hafa tekið ákvörðunina í nótt, en fyrir viku greindi hann frá því að Brexit-flokkurinn byði fram í öllum kjördæmum.
Farage segist hafa tekið ákvörðunina til að draga úr líkum á nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit og að enginn flokkur, það er Íhaldsflokkurinn, fengi hreinan meirihluta á þingi.
Hann segir að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hafi lagt til útgöngu úr Evrópusambandinu sem hljómi eins og það sem breska þjóðin hafi ákveðið í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2016.
Farage segir að flokksmenn muni leggja alla áherslu á að ná þingsætum í þeim einmenningskjördæmum þar sem Verkamannaflokkurinn vann sigur í síðustu kosningum. Þykir ljóst að Íhaldsflokkurinn muni hagnast mikið á þessari nálgun Brexit-flokksins.
