Innlent

Leggja á línur um opinbera umfjöllun

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Helgi Magnús Gunnarsson sat fyrir miðju á blaðamannafundi rannsakenda um Aserta-málið árið 2010.
Helgi Magnús Gunnarsson sat fyrir miðju á blaðamannafundi rannsakenda um Aserta-málið árið 2010.
Hæstiréttur mun fjalla um mörk opinberrar umfjöllunar lögreglu og ákæruvalds um sakamál sem til rannsóknar eru. Rétturinn féllst í vikunni á beiðni Gísla Reynissonar um áfrýjun dóms Landsréttar þar sem honum voru dæmdar tvær og hálf milljón í bætur í vegna svonefnds Aserta-máls.

Bæturnar fékk Gísli vegna aðgerða lögreglu og ákæruvalds við rannsókn Aserta-málsins sem varðaði meint stórfellt brot á gjaldeyrislögum en Gísli og aðrir ákærðu í málinu voru sýknaðir í Héraðsdómi Reykjaness árið 2014.

Þær aðgerðir sem Gísli fékk bætur fyrir voru handtaka, húsleit, haldlagning og rannsókn fjarskiptagagna, kyrrsetning á eignum og haldlagning fjármuna á bankareikningi hans. Landsréttur hafnaði hins vegar kröfu Gísla um bætur vegna ummæla sem Helgi Magnús Gunnarsson, þá yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, lét falla á sérstökum blaðamannafundi sem boðað var til um málið þegar það var á rannsóknarstigi.

Í ákvörðun sinni um áfrýjunarleyfi féllst Hæstiréttur á að dómur um þetta atriði geti haft fordæmisgildi en beiðni Gísla byggist meðal annars á því að Hæstirréttur hafi ekki áður fjallað um hvar leyfileg mörk umfjöllunar lögreglu og ákæruvalds séu um mál sem til rannsóknar eru. Stjórnarskrárvarin réttindi vegist á við slíkt mat.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×