Í samtali við Markaðinn staðfestir Árni kaupin en hann hefur jafnframt tekið við sem stjórnarformaður byggingavöruverslunarinnar. Á meðal seljenda var fagfjárfestasjóðurinn GAMMA: EQ1 sem er í stýringu GAMMA, dótturfélags Kviku banka, en sjóðurinn átti tæplega 26 prósenta hlut í Múrbúðinni.
Samtals námu tekjur félagsins tæplega 940 milljónum króna í fyrra og minnkuðu um 23 milljónir frá árinu 2017. Hagnaður Múrbúðarinnar nam um 58 milljónum króna og hélst nánast óbreyttur á milli ára. Eigið fé fyrirtækisins var 188 milljónir í árslok 2018 og arðsemi eigin fjár á síðasta ári var því rúmlega 30 prósent. Eiginfjárhlutfall félagsins var um 43 prósent.
Árni og Hallbjörn voru á sínum tíma aðaleigendur Húsasmiðjunnar, sem þá var stærsta byggingavöruverslun landsins, en seldu meirihluta sinn í fyrirtækinu árið 2005.

Auk Vogabakka eru aðrir helstu hluthafar Múrbúðarinnar, í gegnum eignarhaldsfélagið MBFK, meðal annars félagið Vindhamar, sem er í eigu Kára Guðjóns Hallgrímssonar, stjórnanda á skuldabréfasviði fjárfestingarbankans JP Morgan í London, en það á rúmlega 22 prósenta hlut. Kári fjárfesti fyrr á þessu ári í fjárfestingarfélaginu Stoðum auk þess sem hann er hluthafi í hátæknifyrirtækinu Völku ásamt meðal annars þeim Árna og Hallbirni.
Þá eiga þeir Jóhann Pétur Reyndal, fyrrverandi starfsmaður slitastjórnar Kaupþings og stjórnarmaður í Múrbúðinni, og Páll, sem jafnframt situr í stjórn byggingavöruverslunarinnar, hvor um sig um 14 prósenta hlut í fyrirtækinu.
Fjárfestingarfélagið Vogabakki, sem er í jafnri eigu Árna og Hallbjörns, hagnaðist um 415 þúsund evrur í fyrra, jafnvirði 56 milljóna króna, borið saman við hagnað upp á rúmlega 2,2 milljónir evra á árinu 2017. Heildareignir félagsins námu 29 milljónum evra í árslok 2018 og eigið fé Vogabakka var um 24 milljónir evra. Eignir félagsins samanstanda einkum af eignarhlutum í öðrum félögum, sem eru bókfærðar á 18,7 milljónir evra, en þar munar langsamlega mest um skráð erlend hlutabréf að fjárhæð tæplega 14,8 milljónir evra.