Innlent

Tveir með dólgslæti handteknir á bráðamóttökunni

Samúel Karl Ólason skrifar
Mennirnir voru með óspektir og hlýddu ekki ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa svæðið.
Mennirnir voru með óspektir og hlýddu ekki ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa svæðið. Vísir/HANNA

Tveir karlmenn í mjög annarlegu ástandi voru handteknir í tveimur aðskildum málum í og við bráðamóttökuna í Fossvogi í nótt. Mennirnir voru með óspektir og hlýddu ekki ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa svæðið, samkvæmt dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Ráðist var á umsjónarmann skíðasvæðis Grafarvogs um klukkan sjö í gær. Það gerðist þegar umsjónarmaðurinn gerði athugasemd við að nokkrir unglingspiltar færu ekki eftir reglum skíðasvæðisins. Réðust þeir þá á hann með höggum og spörkum.

Sjá einnig: Veittust að starfs­manni skíða­svæðisins í Grafar­vogi

Þeir voru farnir þegar lögregluþjóna bar að garði.

Skömmu síðar var tilkynnt um nokkra drengi sem brutu rúðu á sundstað í austurborginni. Það atvik náðist hugsanlega á upptöku.

Þá var tilkynnt um þjófnað á veski viðskiptavinar í matvöruverslunar í miðbænum. Það atkvæði náðist einnig hugsanlega á upptöku.

Heilt yfir voru 58 mál bókuð hjá lögreglunni frá fimm í gær til fimm í morgun. Þar af voru tveir ökumenn handteknir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Skráningarmerki voru tekin af 56 bílum sem ekki voru tryggðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×