Eins og frá var greint í morgun hefur Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar sagt sig frá þingmennsku. Í stað hans kemur Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara, og tekur sæti á þingi.
Þetta er sögulegt en eftir því sem næst verður komist eru dætur hennar þrjár þá þar með fyrstu börnin sem eiga foreldra sem bæði sitja á þingi.
Barnsfaðir Þorbjargar Sigríðar er Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður Samfylkingarinnar. Þau skildu fyrir nokkrum árum. Eða eins og segir á alþingisvefnum um Ágúst Ólaf: „Maki: Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (fædd 23. maí 1978) lögfræðingur. Þau skildu. […]Dætur: Elísabet Una (2002), Kristrún (2005), María Guðrún (2012).“
Fyrrverandi hjónin Ágúst Ólafur og Þorbjörg Sigríður sitja þá á þingi hvort fyrir sinn flokkinn, Viðreisn og Samfylkingu, en eru samherjar í stjórnarandstöðu. Eftir því sem fréttastofa kemst næst eru þau því fyrstu fyrrverandi hjónin sem sitja saman á Alþingi.