Innlent

Enginn í húsinu þegar eldurinn kom upp: „Ég hefði viljað hafa tilkynninguna aðeins agressífari“

Sylvía Hall og Jóhann K. Jóhannsson skrifa
Tilkynning barst slökkviliðinu á áttunda tímanum í kvöld. 
Tilkynning barst slökkviliðinu á áttunda tímanum í kvöld.  Vísir/Jóhann K

Um það bil fimmtán til tuttugu manns vinna nú á vettvangi við Hverfisgötu 106 þar sem eldur kom upp í fjölbýlishúsi í kvöld. Tilkynning barst slökkviliðinu rétt fyrir átta.

„Það var tilkynnt um ljósan reyk frá þaki á húsi og svo sem ekkert mikið meira en það. Við fórum á staðinn og þá var jú reykur frá þaki, en við sáum strax að það var eldur,“ segir Árni Oddson varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í samtali við fréttastofu.

„Ég hefði viljað hafa tilkynninguna aðeins agressífari. Það klárlega var eldur inni og svo fórum við inn með reykkafara og það er búið að vera að vinna síðan.“

Frá vettvangi.Vísir/Jóhann K

Eldurinn kom upp í risi í húsinu en húsið var mannlaust. Miklar skemmdir eru í risinu en unnið er að því að slökkva það síðasta og rífa það sem rífa þarf.

„Í svona gömlum húsum er þetta dálítið mikið rifrildi. Það eru allar gerðir af einangrun í þakinu og búið að klastra þetta í gegnum árin þannig þetta er dálítið mikið rifrildi. Við hættum ekkert fyrr en allt er horfið, reykur og vesen. Svona lagað getur legið lengi og farið af stað aftur,“ segir Árni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×