Björgunarsveitir Landsbjargar og sjúkrabílar frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins voru kallaðir til í kvöld eftir að maður féll í Úlfarsfelli. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu var maðurinn við eggjatínslu og hlaut hann áverka á fæti.
Búið er að koma honum niður af Úlfarsfelli og var hann fluttur á sjúkrahús.

Maðurinn féll í beinni sjónlínu frá slökkvistöðinni í Mosfellsbæ og þar höfðu slökkviliðsmenn fylgst með honum og þeim sem voru með honum. Kristján Sigurðsson, aðstoðarvarðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, segir þá í raun hafa átt von á útkallinu.
„Þannig að við fórum af stað frá þessari stöð og fengum aðstoð frá Tunguháls-stöðinni okkar. Það var nokkuð greið leið að manninum en nokkuð laust í fjallinu," segir Kristján.
Hann segir manninn líklega hafa fallið af syllu en hann hafi verið í góðu ástandi. Fallið segir Kirstján að hafi ekki verið mjög hátt. Maðurinn hafi þó rúllað tíu til tuttugu metra niður hlíðina.


