Flestum fermingum þessa árs hefur verið frestað til haustsins vegna kórónuveirunnar en eftir að samkomubanni var aflétt hafa nokkur börn haldið upphaflegum áætlunum. Sex börn voru fermd í Guðríðarkirkju í Grafarholti í dag.
Iðulega hefst fermingartímabil kirkjunnar í lok mars og hafa þúsundir unglinga beðið þess að ganga til altaris. Samskiptastjóri Biskupsstofu sagði í samtali við fréttastofu í dag að flestar fermingar munu fara fram í haust en nokkrar eru þó áætlaðar á þessu vori.
Kirkjan fylgi öllum fyrirmælum almannavarna og sóttvarnalæknis um smitvarnir í helgihaldi sínu. Sr. Leifur Ragnar Jónsson og Sr. Pétur Ragnhildarson stýrðu athöfninni í dag en sóknarprestur Guðríðarkirkju er alþingismaðurinn fyrrverandi Sr. Karl V. Matthíasson.
Hrönn Helgadóttir organisti lék á orgel og kór Guðríðarkirkju söng við athöfnina.
![](https://www.visir.is/i/DAE25A51C52E9072B65444C9FFED4D5349A6101FF26B8560483EA71FC3F7106D_713x0.jpg)