Körfubolti

Sagði Lebron og Durant að „halda kjafti og drippla“ en að Brees „hefði rétt á sinni skoðun“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
LeBron James og Kevin Durant eru mótherjar inn á vellinum en samherjar utan hans.
LeBron James og Kevin Durant eru mótherjar inn á vellinum en samherjar utan hans. Ezra Shaw/Getty Images

Mikill munur er á viðbrögðum Laura Ingraham, þáttastjórnanda á Fox News, við ummælum Drew Brees og því þegar LeBron James og Kevin Durant ræddu við hana fyrir tveimur árum síðan.

Eins og Vísir hefur greint frá lét Drew Brees, hinn 41 árs gamli leikstjórnandi New Orleans Saints í NFL-deildinni, ummæli falla sem féllu í grýttan jarðveg. Svo vægt sé tekið til orða. Brees hefur nú beðist afsökunar á ummælum sínum.

Fjallað var um ummælin á sjónvarpsstöðinni Fox News. Þar vakti athygli að fréttaþulan Laura Ingraham varði Brees og sagði að „hann hefði rétt á sinni skoðun.“ Aðeins tvö eru síðan Laura sagði LeBron James og Kevin Durant, tveimur af bestu körfuboltamönnum NBA-deildarinnar undanfarin ár, að „halda kjafti og drippla“ þegar þeir ræddu pólitísk málefni í þættinum hennar.

„Hann má tjá sig um skoðanir sínar varðandi það að taka hné og hversu mikilvægur bandaríski fáninn er fyrir honum. Hann er manneskja og þetta snýst um meira en aðeins [bandarískan] fótbolta,“ sagði Ingraham í þætti sínum The Ingraham Angle á miðvikudagskvöld.

LeBron tjáði sig um málið á Twitter.

„Ef þið hafið ekki enn áttað ykkur á því af hverju mótmælin eru í gangi og af hverju við erum að haga okkur eins og við erum haga okkur þá þá er það af því við erum svo andskoti þreytt á þessari meðferð sem þið sjáið hér. Getum við brotið þetta niður fyrir ykkur á einfaldari hátt en í þessu myndandi,“ segir LeBron en téð myndband má sjá í Twitter-færslu hans hér að neðan.

Þar sést munurinn á því þegar Ingraham talar við þá LeBron og Durant annarsvegar og svo þegar hún ræðir við Brees.

Í gærkvöld, fimmtudag, ræddi Ingraham málið í þætti sínum. Þar sagði hún að aðstæður í kringum ummæli hennar árið 2018 og nýverið væru ekki eins og því væri ekki hægt að bera málin saman.

„Allir Bandaríkjamenn hafa rétt á að tjá sig um það sem liggur þeim á hjarta. Við þurfum að eiga betri og meiri samskipti ef við ætlum okkur að jafna okkur sem þjóð. Við þurfum meiri virðingu,“ sagði Ingraham að lokum.

USA Today tók saman.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×