Innlent

Mikill eldur kom upp í gámi fullum af bíl­hræjum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Brunavarnir Suðurnesja
Brunavarnir Suðurnesja Sýn/Einar Árnason

Eldur kom upp í stórum vörugámi í portinu við bílaflutningafyrirtæki að Fitjabraut 14 í Keflavík klukkan fjögur í nótt. Vel tókst að slökkva eldinn en hann var þó mikill og mikinn reyk lagði frá gámnum.

Búið var að opna gáminn að ofan og í var hann fullur af bílum, dekkjum og öðrum úrgangi og lagði svartan reyk frá honum sem á tímabili lá yfir eldri hluta Njarðvíkur.

Herbert Eyjólfsson, varðstjóri á vakt hjá Brunavörnum Suðurnesja, segir í samtali við fréttastofu að ekki sé vitað hvernig kviknað hafi í en grunur sé að um íkveikju sé að ræða. Það sé þó ekki hægt að vita með vissu.

„Við vitum það ekki en grunar kannski íkveikju en við erum ekki með það öruggt. Þeir voru seinast þarna held ég milli fjögur og sex í gærdag, voru þeir að vinna þarna,“ segir Herbert.

Engin hætta var á að eldurinn breiddist út þar sem hann kom upp ofan í gámnum og vel tókst að slökkva eldinn en slökkvistarfi var lokið um klukkan hálf sex í morgun. Einn dælubíll var sendur á staðinn og gat slökkviliðið gat notast gröfu til að taka dót upp úr gámnum og honum var að lokum velt sem auðveldaði slökkvistarf töluvert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×