Knattspyrnudeild Þórs hefur verið sektuð um 50.000 krónur vegna framkomu þjálfara og tveggja leikmanna eftir sigur á Grindavík síðasta föstudag, „derhúfumálsins“ svokallaða.
Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ ákvað að sekta Þór eftir að framkvæmdastjóri KSÍ vísaði málinu til nefndarinnar á þeim forsendum að það gæti skaðað ímynd fótboltans. Í úrskurði nefndarinnar kemur fram það mat framkvæmdastjóra að framkoman jaðri við og jafnvel brjóti í bága við ákvæði landslaga.
Þórsarar mættu í myndbandsviðtöl við Fótbolta.net eftir sigurinn á föstudag með derhúfu merkta erlendu veðmálafyrirtæki á höfðinu.
Framkvæmdastjóri KSÍ, Klara Bjartmarz, vísaði málinu til aganefndar áður en að Vísir greindi frá því í dag að Þórsarar hefðu einnig auglýst veðmálafyrirtækið á árskortum á heimaleiki liðsins í sumar.
Uppfært: Í samtali við Vísi sagðist Klara ekki búast við því að sambandið myndi aðhafast nokkuð frekar vegna málsins, en að það yrði þó skoðað í ljósi nýrra upplýsinga.
Samkvæmt reglugerð um aga- og úrskurðarmál er hámarkssekt sem nefndin getur veitt 100.000 krónur vegna mála sem skaðað geta ímynd knattspyrnunnar. Þórsarar hafa þrjá daga til að áfrýja úrskurðinum.
Í úrskurði aganefndar er minnt á eftirfarandi grein úr reglugerð KSÍ um knattspyrnumót:
„Félög, iðkendur, forystumenn og aðrir skulu jafnan sýna drengskap og forðast hvaðeina sem rýrt gæti álit almennings á íþróttinni og koma fram af hollustu, heiðarleika og sönnum íþróttaanda. Þeir sem taka þátt í starfi knattspyrnuhreyfingarinnar skulu leitast við að gera ekkert það sem til vanvirðu má telja fyrir íþróttina.“