Starfsmaður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins greindist í morgun með COVID-19. Mbl greindi frá þessu nú í morgun. Þetta þýðir að um 15 starfsmenn fara í sóttkví eða allir þeir sem störfuðu á sömu hæð og hinn smitaði. Í frétt mbl segir að smitið hafi ekki komið fram á ráðherragangi sem þýðir að þau Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem hafa þar aðsetur þurfa ekki við svo búið að fara í sóttkví.
Ásta Sigrún Magnúsdóttir, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Hún segir að skrifstofur ráðherra séu ekki á hæðinni sem smitið kom upp og þar af leiðandi eru þeir ekki í sóttkví. Um leið og grunur kom upp um Covid-sýkingu á hæðinni í gærkvöldi fóru allir fimmtán starfsmenn sem þar starfa í sjálfskipaða sóttkví á meðan beðið er frekari fyrirmæla frá smitrakningarteymi.
Mbl.is telur sig hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því að hinn smitaði starfsmaður hafi smitast eftir „eftir samskipti við knattspyrnukonu hjá Breiðabliki, sem greindist með kórónuveiruna í gær. Allir sem höfðu verið berskjaldaðir fyrir smiti í samskiptum við knattspyrnukonuna þurfa að fara í sóttkví í fjórtán daga.“
Smitrakningarteymi vinnur nú að því að rekja smitið. Í samtali við fréttastofu segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn að um sé að ræða fyrsta innanlandssmitið frá því í apríl; fyrsta hópsýkingin sem kemur upp. En nánar verður fjallað um málið í hádegisfréttum Bylgjunnar.
Vísir sagði frá því í gær að smit hafi komið upp innan raða Blika í Kópavogi: Leikmaður kvennaliðs Breiðabliks í fótbolta hefur greinst með kórónuveirusmit. Liðsfélagar og þjálfarar hennar, sem og leikmenn og þjálfarar KR, þurfa nú að fara í tveggja vikna sóttkví.
Kl. 11:46 - Fréttin hefur verið uppfærð.