Innlent

Fimm milljónir í að rífa upp ársgamalt undirlag

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hér má sjá leiktækin sem málið snýr að.
Hér má sjá leiktækin sem málið snýr að. Breiðholtslaug

Loka hefur þurft af ákveðið svæði Breiðholtslaugar vegna framkvæmda við undirlag leiktækja við laugina. Leiktækin og undirlag þeirra var sett upp síðasta sumar. Gert er ráð fyrir að framkvæmdirnar nú kosti um fimm milljónir króna.

Í svari Ólafar Örvarsdóttur, sviðsstjóra Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, kemur fram að ástæða framkvæmdanna sé sú að meira vatn hafi komið frá vatnstækjunum en gert var ráð fyrir.

„Jarðvegurinn undir drenast ekki eins og vel talið var, með þeim afleiðingum að vatnið safnaðist saman undir flísunum og þær fóru á flot,“ segir í skriflegu svari hennar.

Því hafi verið litið til laugarinnar á Akureyri, þar sem er slípuð, steypt plata með vatnshalla að niðurföllum, og ákveðið að gera eins og þar. Síðan verði gúmmíhellur límdar á plötuna með epoxylími.

Eins og áður segir er áætlaður kostnaður við verk sumarsins um fimm milljónir króna. Bætist það við þær 17 milljónir króna sem kostaði að setja upp rennibraut og kaldan pott árin 2018 og 2019. Verktakafyrirtækið K16 sér um framkvæmdirnar, líkt og framkvæmdir við laugina síðustu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×