Tveir fyrrverandi fulltrúar sjómanna í úrskurðarnefnd útvegsmanna og sjómanna segjast eiga sömu gögn um karfarannsókn á Samherja og komu fram í Kastljósi í mars árið 2012. Verðlagsstofa skiptaverðs hefur staðfest að athugun hafi farið fram á verðlagningu karfa og skjal þess efnis hafi farið fyrir úrskurðarnefndina.
Samherji birti í gær myndband á Youtube þar sem Helgi Seljan fréttamaður og Ríkisútvarpið eru sökuð um að hafa falsað gögn við gerð Kastljóssþáttar í mars 2012. Í þættinum var vísað í skýrslu verðlagsstofu skiptaverðs og fyrirtækið sakað um selja dótturfélagi sínu í Þýskalandi karfa á undirvirði á árunum 2010 og 2011 og þannig brotið gjaldeyrislög.
Ríkisútvarpið stendur við umfjöllunina og hefur gefið út að skýrslan sem vísað er til í umfjölluninni í Kastljósi 2012 sé til.
Fréttastofa óskaði eftir að fá umrædd skjöl frá úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna í dag. Yfirlýsing barst frá Verðlagsstofu skiptaverðs í framhaldinu og staðfest er að þar hafi upplýsingar verið teknar saman um karfaútflutning á umræddu tímabili og sendar til úrskurðarnefndarinnar. Þetta sé excel-skjal með töflu um allan útflutning á karfa á Íslandi. Ekki hafi verið skrifuð sérstök skýrsla.
Tveir fyrrverandi fulltrúar sjómanna sem sátu í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna um árabil segja að umrædd gögn sem vísað var til í Kastljósi séu þau sömu og nefndin hafi fengið á sínum tíma . Þeir eigi þau en um sé að ræða trúnaðargögn.
„Það skiptir ekki nokkru máli hvort þetta heiti skýrsla eða minnisblað. Þetta voru gögn sem nefndin var að vinna með, þar kom þetta fram og um það snýst allt málið,“ segir Sævar Gunnarsson, fyrrverandi formaður Sjómannasambands Íslands.
Guðmundur Ragnarsson, fyrrverandi formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, tekur undir ummæli Sævars.
„Hvort þetta er í skýrsluformi eða excel-skjali, það skiptir ekki máli. Aðalmálið er að það sé ekki verið að svindla á sjómönnum í að borga lægra verð en mönnum ber að gera.“
„Við sáum það allir í úrskurðarnefndinni. Ég var með gögnin í höndunum þegar þátturinn var birtur og það var ekkert búið að eiga við tölurnar þar,“ segir Sævar.
Guðmundur segir að Samherji hafi ekki brugðist við athugasemdum vegna málsins á sínum tíma.
„Ef menn voru staðnir að verki þá löguðu menn það en í þessu tilfelli var það aldrei gert. Ekki svo ég viti til,“ segir Guðmundur.
„Ég skil ekki þessa umræðu. Það vita það allir sem komu að þessu að þetta var svona.“