Innlent

Hnífsstunga í Garðabæ: Mennirnir tengjast fjölskylduböndum

Andri Eysteinsson og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Lögregla handtók manninn í nótt.
Lögregla handtók manninn í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan í Hafnarfirði var kölluð að heimahúsi í gærkvöldi vegna manns sem hafði stungið annan mann með hníf í heimahúsi í Garðabæ. RÚV greindi fyrst frá.

Þegar að var komið var sá sem var stunginn flúinn út úr íbúðinni ásamt öðrum fjölskyldumeðlimi og var með stungusár á hönd og hálsi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Hafnarfirði eru stungusárin ekki lífshættuleg.

Sérsveit lögreglunnar var kölluð út eins og gerist ávallt þegar um vopn er að ræða. Árásarmaðurinn var inni í íbúðinni en hann tengist fólkinu fjölskylduböndum. Sérsveitin handtók viðkomandi og veitti hann enga mótspyrnu. Að sögn lögreglu glímir maðurinn við veikindi og var ekki undir áhrifum vímuefna þegar árásin var framin.

Var maðurinn færður í fangageymslu og verður hann færður undir læknishendur að lokinni yfirheyrslu í dag. Rannsókn málsins er í höndum miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×