Mál Kristjáns Gunnars Valdimarssonar, lektors við Háskóla Íslands, er komið til Landsréttar og er þar nú til meðferðar. Mun rétturinn taka afstöðu til kæru lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu varðandi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafnaði kröfu lögreglunnar um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir Kristjáni.
Þetta staðfesti Björn L. Bergsson, skrifstofustjóri Landsréttar, í samtali við fréttastofu í morgun. Sagði hann almennt reynt að flýta málum eins og kostur er og að dómarar væru að vinna í málinu.
Það var á mánudag sem héraðsdómur hafnaði kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um áframhaldandi gæsluvarðhald í fjórar vikur vegna gruns um að hann hafi brotið kynferðislega gegn þremur konum og svipt þær frelsi sínu.
Kristján Gunnar hafði þá setið í gæsluvarðhaldi frá því á jóladag eftir að hann var handtekinn þann sama dag á heimili sínu við Aragötu í Vesturbæ Reykjavíkur. Eftir að héraðsdómur hafnaði kröfu lögreglu var Kristján Gunnar látinn laus.
Fréttin hefur verið uppfærð.
