Laust eftir klukkan 22 í gærkvöldi barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um líkamsárás og tilraun til ráns.
Að því er segir í dagbók lögreglu réðust þrír ungir menn að öðrum manni og kröfðu hann um peninga. Sá sem ráðist var á komst frá þeim þremur sem réðust að honum og til félaga síns. Er málið til rannsóknar hjá lögreglu.
Skömmu fyrir hálfsex í gærkvöldi var síðan tilkynnt um bílveltu á Hólmsheiðarvegi. Ökumaðurinn var einn í bílnum og slapp ómeiddur.
Þá voru þrír ökumenn stöðvaðir í gærkvöldi og nótt á höfuðborgarsvæðinu grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.
