Tómas Gerald Sullenberger, kaupsýslumaður og sonur Jóns Geralds Sullenberger, hefur endurreist verslunina Kost, sem faðir hans stofnaði og rak um árabil. Verslunin er aðeins á netinu, ólíkt því sem var í tíð föður hans.
Í vikunni var vakin athygli á því að vefsíðan Kostur.is væri opin á ný. Á vefsíðunni eru bandarískar vörur til sölu, allt frá matvöru til snyrtivöru, og boðið upp á heimsendingu. Fyrirtækið Smartco ehf., sem er í eigu Tómasar Geralds, er skráð fyrir vefsíðunni, líkt og DV greindi frá í gær.
Rætt er við Tómas Gerald í Morgunblaðinu í morgun. Þar segir hann að aðrar matvöruverslanir á Íslandi hafi ekki fyllt upp í það skarð sem myndaðist við brotthvarf Kosts. Mikil eftirspurn hafi myndast á markaðnum eftir vörum sem boðið var upp á Kosti. Þessu kveðst Tómas Gerald hafa fylgst vel með eftir að Kostur lokaði og faðir hans flutti til Miami í Bandaríkjunum.
Sjá einnig: „Það er búið að gráta mikið, þetta er búið að vera gríðarlega erfitt“
Kostur opnaði við Dalveg í Kópavogi árið 2009 en henni var lokað síðla árs 2017. Jón Gerald sagði í tilkynningu á sínum tíma að aðstæður rekstrarins hefðu breyst verulega með tilkomu Costco á Íslandi, þar sem hún hafi í mörgum tilvikum boðið upp á sambærilegar vörur. Verslunin var svo tekin til gjaldþrotaskipta árið 2018.