Fimm einstaklingar sem smitaðir eru af Wuhan-kórónaveirunni í Frakklandi, þar á meðal eitt barn, eru Bretar. Fimmmenningarnir smituðust af veirunni í fríi sínu í frönsku Ölpunum þar sem þeir héldu til á skíðahóteli. Smitið hefur verið rakið til annars Breta sem hafði ferðast til Singapore og svo til Frakklands þar sem hann hafði haldið til á skíðahótelinu í nokkra daga.
Manneskjurnar fimm voru hluti af ellefu manna hópi sem var saman á skíðahótelinu og deildu þau tveimur íbúðum í Alpaþorpinu Contamines-Montjoie.
Sjá einnig: Frakkar staðfesta fimm ný Wuhan-veiru smit
Yfirvöld hafa einnig gefið það út að þrír af þessum ellefu eru börn, þar á meðal það sem greint var með veiruna. Börnin höfðu varið einhverjum tíma í skólanum í þorpinu. Skólinn býður upp á frönskunámskeið og mun honum vera lokað tímabundið í næstu viku. Þetta segir Jean-Yves Grall, fulltrúi heilbrigðisyfirvalda á svæðinu.
„Við hófum í gær rannsókn á ástandinu og reynum að finna út úr því hverjir gætu hafa smitast ,“ sagði Grall á blaðamannafundi og bætti því við að verið væri að skoða sérstaklega hverjir hefðu verið í nánum samskiptum við hópinn.
Hann bætti því við að fimmmenningarnir sem voru greindir séu ekki þungt haldnir. Contamines-Montjoie er nærri Genf í Sviss og Mont Blanc.
