Erlent

Blaðamenn gengu út af fundi í Downingstræti 10

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra, á í nokkuð stirðu sambandi við fjölmiðla.
Boris Johnson, forsætisráðherra, á í nokkuð stirðu sambandi við fjölmiðla. vísir/getty

Blaðamenn sem komnir voru til blaðamannafundar í Downingstræti 10 í dag gengu út af fundinum eftir að Lee Cain, einn nánasti samstarfsmaður Boris Johnson, forsætisráðherra, meinaði blaðamönnum tiltekinna fjölmiðla að vera viðstaddir fundinn.

Greint er frá málinu á vef Guardian. Þar kemur fram að Cain hafi beðið blaðamenn frá Mirror, the i, HuffPost, PoliticsHome, Independent og fleiri miðlum að fara þegar fundurinn var að hefjast.

Blaðamennirnir voru allir saman komnir í anddyrinu og var þeim sem hafði verið sérstaklega boðið til fundarins raðað upp öðru megin í herberginu og hinum annar staðar.

Þegar Cain sagði svo þeim blaðamönnum sem ekki máttu mæta á fundinn að fara ákváðu blaðamennirnir sem höfðu fengið boð á fundinn að ganga út.

Á meðal þeirra sem gengu út voru Laura Keunssberg, stjórnmálaskýrandi BBC, Robert Peston hjá ITV, og blaðamenn Sky News, Daily Mail, Telegraph, The Sun og Guardian.

Johnson hefur átt í stirðu sambandi við fjölmiðla og sniðgengur til að mynda þættina Today á BBC og Good Morning Britain á ITV.

Þykir framkoma hans í garð fjölmiðla minna á Donald Trump, Bandaríkjaforseta, sem hefur verið iðinn við að láta þá fjölmiðla sem gagnrýna hann og hans störf heyra það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×