Körfubolti

Sagði Luka Doncic að gefa dómaranum eiginhandaráritun eftir leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Doncic var frábær í leiknum en þjálfari Sacramento þótti hann fá fullmikið hjá dómurum leiksins.
Luka Doncic var frábær í leiknum en þjálfari Sacramento þótti hann fá fullmikið hjá dómurum leiksins. Getty/Ronald Martinez

Luke Walton, þjálfari Sacramento Kings í NBA-deildinni, varð sér til skammar með orðum sínum í leik á móti Dallas Mavericks í nótt.

Dallas Mavericks vann leikinn örugglegha 130-111 og hefur nú unnið jafnmarga leiki (33) og Sacramento Kings hefur tapað (33).

Luke Walton var að væla undan dómurum og hélt því fram að Slóveninn frábæri, Luka Doncic, væri að fá einhverja sérmeðferð hjá þeim.

Walton hafði fengið tæknivillu fyrir mótmæli og í stað þess að halda áfram að nöldra í dómaranum þá beindi hann orðum sínum að Luka Doncic.

Á myndbandsupptöku frá atvikinu sést hvað hann sagði við Slóvenann.

„Heyrðu Luka. Gerðu mér greiða og gefðu honum eiginhandaráritunina þína eftir leikinn,“ sagði Luke Walton og benti á einn dómarann. „Hann er aðdáandi þinn,“ bætti Walton við.



Luka Doncic svaraði ekki þjálfara Sacramento Kings í orðum en gerði það aftur á móti inn á vellinum.

Doncic endaði leikinn með 33 stig, 12 fráköst og 8 stoðsendingar. Eftir atvikið starði hann á Luke Walton eftir hverja körfu.

Þetta var fyrsti leikur Luka Doncic eftir meiðsli en hann hafði misst af sjö leikjum Dallas Mavericks í röð.

Luke Walton stóð síðan ekki við stóru orðin eftir leikinn og þóttist ekkert hafa sagt við Luka Doncic.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×