Umfjöllun og viðtöl: HK - FH 20-34 | FH rúllaði yfir HK eftir rólega byrjun

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Ásbjörn Friðriksson, leikstjórnandi FH.
Ásbjörn Friðriksson, leikstjórnandi FH. vísir/daníel þór

FH vann fjórtán marka sigur á HK í Kórnum í dag, 20-34 í 19. umferð Olís-deild karla í dag.

HK byrjaði leikinn betur og leiddi leikinn alveg fram á 20. mínútu. FH-ingar voru ískaldir í byrjun leiks og ólíkir sjálfum sér. Eftir að þeir rönkuðu við sér var ekki aftur snúið og var staðan 11-18 þegar flautað var til hálfleiks.

Í byrjun seinni hálfleiks áttu HK-menn erfitt uppdráttar og tók Elías Már Halldórsson tvisvar leikhlé á fyrstu 10. mínútum seinni hálfleiks. Þau leikhlé skiluðu litlu og var gríðarlegt andleysi hjá HK.

Þegar flautað var til leiksloka voru FH-ingar 14 mörkum yfir, 20-34. 

Afhverju vann FH?

Frá því að FH-ingar rönkuðu við sér á 20. mínútu voru þeir gríðarlega sterkir bæði sóknarlega og varnarlega. Þeir náðu oft á tíðum að galopna vörn HK. Þeir gengur einnig á lagið í 7 á 6 kerfi HK og fóru nokkrir boltar þvert yfir völlinn og í markið. Markmenn FH voru góðir og var Phil Döhler með 11 varða bolta, 38% markvörslu og Birkir Fannar kom inn á loka mínútum leiks og var með 6 bolta varða, 75% markvörslu.

Hverjir stóðu upp úr?

Í liði HK var það Símon Michael Guðjónsson sem var atkvæðamestur með 4 mörk. Hann byrjaði leikinn gríðarlega vel og skoraði öll mörkin sín á fyrstu 7. mínútum leiksins. Á eftir honum voru það Kristján Ottó Hjálmsson og Pétur Árni Hauksson báðir með 3 mörk. Stefán Huldar Stefánsson stóð í markinu í fyrri hálfleik og klukkaði sex bolta og var með 25% markvörslu.

Í liði FH-inga var það Ásbjörn Friðriksson atkvæðamestur með 7 mörk. Á eftir honum kom Einar Örn Sindrason, Einar Rafn Eiðsson og Arnar Freyr Ársælsson allir með 5 mörk. Phil Döhler var góður í markinu með 11 bolta varða og varnarleikur FH var góður. 

Hvað gekk illa?

Leikur HK eftir að þeir misstu forystuna niður. Mikið andleysi ríkti yfir þeim og áttu þeir erfitt með að finna svör við vörn FH. 7 á 6 leikkerfið gekk vel á fyrstu 20. mínútunum en í lok fyrri hálfleiks og í seinni hálfleik gekk það ekki og gengur FH-ingar á lagið með að skjóta þvert yfir völlinn og í tómt markið.

Hvað gerist næst?

HK eiga gríðarlega erfitt verkefni framundan þar sem þeir sækja Valsmenn.  FH fær KA í heimsókn í Kaplakrika báðir leikirnir fara fram miðvikudaginn 11. mars kl 19:30.

Elías Már: Ég er orðlaus

Elías Már Halldórsson var að vonum svekktur eftir 14 marka tap HK gegn FH í Olís-deild karla í dag, 20-34. „Ég er pínu orðlaus, það er eitthvað sem gerist í stöðunni þegar við erum 6-2 yfir í byrjun leiks. Þá er eins og blaðran springi og við gefumst upp.“

HK leiddi leikinn fyrstu 20. mínúturnar en eftir að FH náði að saxa á forystuna og komst yfir var ekki aftur snúið „Við spilum hræðilega, á öllum stöðum vallarins. Ég er orðlaus.“

„Við undirbjuggum okkur mjög vel, og ég veit ekki skýringuna á frammistöðunni. Ég veit ekki hvort menn höfðu ekki trú á þessu“ En HK situr í næst síðasta sæti deildarinnar, með 6 stig og hefði þurft 2 stig úr þessum leik en er nú nánast fallið niður í Grill-66 deildina.

Næstu leikir HK er við toppliðin í deildinni, en þeir eiga Val í næsta leik „Við eigum mjög erfitt prógram eftir og það er alveg ljóst að ef við mætum með þetta hugafar í leikina þá eigum við ekki möguleika,“ sagði Elías Már Halldórsson að lokum. 

Sigursteinn: Ég er mjög ánægður

Sigursteinn Arndal var HRESS eftir 14 marka sigur á HK í Olís-deild karla í dag, 20-34. „Ég er mjög ánægður með þennan sigur, við fengum þau tvö stig sem við ætluðum að taka.“

FH-ingar voru lengi að koma sér inn í leikinn og voru kaldir á fyrstu 20. mínútum leiksins, „Við vissum að HK vorum með flott lið og erfitt að spila á móti 7 á 6 og erum við búnir að nota vikuna í að æfa það. Við unnum okkur inn í það og héldum vel áfram allann leikinn.“

Jóhann Birgir Ingvarsson hitaði upp með liðinu en var síðan kominn upp í stúku þegar flautað var til leiks. „Það er eitthvað smotterí, hann verður mættur sterkur til leiks eftir pásu.“

„Við viljum alltaf komast sem hæst upp í tölfunni og það er frábært að við höfum tekið kipp þar upp,“ sagði Sigursteinn Arndal að lokum. FH eru komnir með 26 stig og eiga möguleika á 1. sæti deildarnnar. Valur situr á toppnum, en þeir etja nú kappi við ÍR í Austurbergi og því óljóst með hvort FH lendir 1. eða 2. sæti eftir þennan leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira