Smit eru komin upp á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi. Þar eru fimm smitaðir hjúkrunarfræðingar og fimm í sóttkví. Búið er að aðskilja eina vakt á gjörgæslunni frá hinum og er hún í sóttkví. Það var gert með því að skipta deildinni upp með skilvegg. Að svo stöddu verða fjögur opin rúm á gjörgæslunni í Fossvogi en það mun þurfa að flytja sjúklinga á gjörgæsludeild á Hringbraut. Þetta kom fram á upplýsingafundi Almannavarna og landlæknis klukkan 14 í dag.
Einnig hefur heilbrigðisstarfsfólk sem komið er á eftirlaun, þá sérstaklega hjúkrunarfræðingar, verið skoðað sem mögulegt vinnuafl.
Til eru 26 vel búnar öndunarvélar á Landspítalanum og stendur til boða að kaupa fleiri. Ekki hefur komið til þess að nota þurfi öndunarvélar, enda hafa allir þeir sem smitaðir eru verið með væg einkenni.
Þá mun Íslensk erfðagreining hefja skimun á veirunni í næstu viku. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, átti fund fyrr í dag með landlækni þar sem komist var að þessari niðurstöðu. Skimað verður fyrir kórónuveirunni víða að úr samfélaginu til að kanna hvort hún sé útbreiddari en talið er.
Ef kórónuveirusmit finnast hjá fólki sem ekki hefur verið í beinum samskiptum við einstaklinga sem verið hafa á skilgreindum hættusvæðum verður viðbragðsáætlun breytt. Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, segir að endurmeta þyrfti við þær aðstæður hvort sóttkví og einangrun séu það rétta í stöðunni. Ef ekki kemur upp smit í samfélaginu verður sóttkví og einangrun beitt áfram, enda skili það árangri.
Upplýsingafundur almannavarna og landlæknis var í beinni útsendingu klukkan 14 í dag á Vísi og Stöð 3. Hægt verður að horfa á upplýsingafundinn á Vísi eftir örskamma stund.
Fréttinni var breytt kl. 14:54.