Handbolti

Kristinn: Þegar þú keppir fyrir framan svona fólk langar þig virkilega til að vinna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmenn ÍBV fóru á kostum í Laugardalshöllinni í dag.
Stuðningsmenn ÍBV fóru á kostum í Laugardalshöllinni í dag. vísir/daníel

Kristinn Guðmundsson, annar þjálfara ÍBV, var að vonum kátur eftir að Eyjamenn tryggðu sér bikarmeistaratitilinn í dag.

Hann sagði að leikurinn hefði verið erfiður og hrósaði Stjörnumönnum fyrir þeirra frammistöðu.

„Við áttum í bullandi erfiðleikum allan leikinn. Við vorum hátt stilltir. Vörnin var góð en í sókninni vorum við í ofboðslega miklum vandræðum. Þeir gerðu þetta vel. Við töldum okkur vera undirbúa en vörnin þeirra kom okkur í mikil vandræði,“ sagði Kristinn við Vísi eftir leik.

„Þess vegna er ég gríðarlega sáttur við að klára þetta,“ bætti þjálfarinn við.

Vörn ÍBV hélt allan tímann og fyrir aftan hana átti Petar Jokanovic einn sinn besta, ef ekki besta, leik í vetur.

„Petar var maður leiksins og hann og vörnin sköpuðu nokkur hraðaupphlaup. Við komumst yfir, misstum forystuna frá okkur en náðum að sigla þessu heim á ekta Eyjakarakter.“

Kristinn hrósaði stuðningsmönnum ÍBV sem létu vel í sér heyra í Laugardalshöllinni í dag.

„Þegar þú keppir fyrir framan svona fólk langar þig virkilega til að vinna,“ sagði Kristinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×