Roy Keane segir að Gylfi Þór Sigurðsson hefði átt að vera fljótari að standa upp og koma sér frá þegar Dominic Calvert-Lewin skoraði í uppbótartíma leiks Everton og Manchester United í dag.
Gylfi var fyrir innan og eftir skoðun á myndbandi var markið dæmt af vegna rangstöðu. Liðin sættust því á skiptan hlut, 1-1.
„Ég væri pirraður út í Gylfa fyrir að koma sér ekki frá. Segið mér eftir hverju var hann að bíða,“ sagði Keane á Sky Sports eftir leikinn á Goodison Park.
Skömmu áður en Calvert-Lewin kom boltanum í netið átti Gylfi skot sem David de Gea varði. Íslenski landsliðsmaðurinn lá svo eftir og var álitinn hafa truflað De Gea þegar Calvert-Lewin skoraði.
„Komdu þér í burtu. Það er almenn skynsemi. Ég skil að Everton-menn séu ósáttir en ákvörðunin var rétt,“ sagði Keane.
Gylfi var hársbreidd frá því að koma Everton 2-1 yfir í seinni hálfleik þegar aukaspyrna hans small í stönginni á marki United.

