Enski boltinn

Segir að Slot verði að taka tvo leik­menn út úr Liverpool-liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Milos Kerkez og Conor Bradley eftir tapleikinn á móti Brentford um síðustu helgi.
Milos Kerkez og Conor Bradley eftir tapleikinn á móti Brentford um síðustu helgi. Getty/Liverpool FC/

Eru tveir leikmenn stórt vandamál fyrir Liverpool á þessari leiktíð. Einn af sérfræðingum enska boltans er harður á því.

Liverpool hefur tapað fjórum deildarleikjum í röð og þeir sem héldu að stórsigur á Frankfurt í Meistaradeildinni í síðustu viku hefði kveikt á Englandsmeisturnum voru aðeins of fljótir á sér. Vandamál liðsins virðist komið til að vera og liðið tapaði á móti Brentford um helgina.

Gary Neville er knattspyrnusérfræðingur auk þess að vera goðsögn hjá Manchester United og nýjasti meðlimurinn í heiðurshöll ensku úrvalsdeildarinnar.

Neville segir hluta af vandamáli Arne Slot, knattspyrnustjóra Liverpool, blasa við í hans augum. Hann ræddi vandamál meistaraliðsins í hlaðvarpi sínu.

Tveir leikmenn liðsins eru að hans mati ekki nógu góðir til að spila í bakvarðastöðum liðsins. Það eru þeir Milos Kerkez og Conor Bradley.

„Ef hann heldur áfram að spila Kerkez sem vinstri bakvörð, og ef hann heldur áfram að spila Bradley sem hægri bakvörð, og þeir halda áfram að vera jafn berskjaldaðir og þeir eru á miðjunni, þá mun hann halda áfram að fá sömu niðurstöðurnar,“ sagði Gary Neville í hlaðvarpinu Gary Neville Podcast.

„Hann verður að taka þessa menn út úr liðinu frekar en að halda áfram að kasta peningi í hverri einustu viku og huga, jæja, ætlum við að vinna, eða ætlum við að tapa?“ sagði Neville.

Slot hefur vissulega möguleika á að breyta hlutum í þessum bakvarðarstöðum frekar en að halda sig við þá Kerkez og Bradley.

Dominik Szoboszlai og Joe Gomez, af þeim leikmönnum sem eru tiltækir, eru færir um að koma í stað Bradley í hægri bakvörð, á meðan Andy Robertson mun berjast við að fá smá leiktíma vinstra megin.

Kerkez var keyptur í sumar til að leysa þessa stöðu en hefur hvergi nærri staðið undir væntingum.

Næsti leikur Liverpool er gegn Crystal Palace í deildabikarnum annað kvöld en svo er komið að næsta leik í ensku úrvalsdeildinni sem er á laugardaginn gegn Aston Villa.

Það verður áhugavert að sjá hvort Slot geri einhverjar stórar breytingar þar sem lið hans á í erfiðleikum, en þeir voru einnig án Ryan Gravenberch og Alexander Isak gegn Brentford. Báðir frá vegna meiðsla.

Kerkez og Bradley eru samt langt frá því að vera einu leikmennirnir sem eru ekki að spila vel um þessar mundir. Þeir hafa hins vegar átt í miklum erfiðleikum í varnarleiknum.

Þrátt fyrir þau vandræði hefur Slot ekki breytt miklu varnarlínunni, hann hefur verið duglegri að færa menn framar á vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×