Kevin De Bruyne, miðvallarleikmaður ríkjandi Englandsmeistara Manchester City, segir að liðið taki úrslitaleik enska deildarbikarsins gegn Aston Villa mjög alvarlega. Pep Guardiola, þjálfari liðsins, tekur í sama streng. Leikurinn fer fram á Wembley og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport klukkan 16:30 í dag.
De Bruyne segir að liðið ætli sér sigur í öllum keppnum og Deildarbikarinn er þar á meðal.
„Félagið tekur alla leiki alvarlega. Það skiptir engu máli hver keppnin eða mótherjinn er, við spilum alltaf til sigurs,“ sagði De Bruyne í viðtali við Sky Sports.
„Þetta er fyrsti titill tímabilsins. Ég veit að fólk segir að þetta sé minnsti titillinn af þeim sem eru í boði en ef þú vinnur ekkert annað þá vannstu að minnsta kosti deildarbikarinn. Það er mikið af leikmönnum þarna úti sem spila allan sinn feril án þess að vinna neitt,“ sagði De Bruyne að lokum.
Man City are bidding to win their third successive League Cup title this afternoon, but Jack Grealish surely holds the key to Aston Villa's hopes?
— Sky Sports (@SkySports) March 1, 2020
Pep Guardiola, þjálfari Manchester City, hefur varað leikmenn sína við kæruleysi en liðið vann magnaðan 2-1 útisigur á Real Madrid í vikunni. Pep vill meina að sigurinn í vikunni geti hjálpað City í dag.
„Það er betra að spila úrslitaleik eftir góð úrslit í miðri viku. En við getum ekki farið inn í leikinn og eingöngu hugsað um hversu góðir við erum.“
„Við höfum spilað vel í aðdragandanum með því að spila tvo leiki á viku en við verðum núna að einbeita okkur að því að vinna leikinn gegn Aston Villa,“ sagði Pep að lokum.
Úrslitaleikur enska Deildarbikarsins fer fram klukkan 16:30 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Þá sýnum við einnig leik Sheffield Wednesday og Manchester City í FA bikarnum sem fram fer þann 4. mars næstkomandi.