Handbolti

Haukar og Afturelding unnu á fyrsta degi Hafnarfjarðarmótsins: Hægt að horfa á leikina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Óli Heimisson og félagar í Haukum unnu Ragnarsmótið um síðustu helgi og byrja líka vel á Hafnarfjarðarmótinu.
Heimir Óli Heimisson og félagar í Haukum unnu Ragnarsmótið um síðustu helgi og byrja líka vel á Hafnarfjarðarmótinu. Vísir/Daníel Þór

Hafnarfjarðarliðunum tveimur, Haukum og FH, gekk misvel á fyrsta degi Hafnarfjarðarmótsins í handbolta sem hófst í gær.

Haukar unnu tveggja marka sigur á Stjörnunni en FH-ingar töpuðu með einu marki á móti Aftureldingu. Hafnarfjarðarmótið er fastur liður á undirbúningstímabili handboltamanna.

Haukar unnu 23-21 sigur á Stjörnunni eftir jafnan leik. Staðan var 12-12 í hálfleik eftir að Stjarnan byrjaði leikinn betur.

Geir Guðmundsson var markahæstur í Haukaliðinu með fjögur mörk en þeir Heimir Óli Heimisson, Ólafur Ægir Ólafsson og Adam Haukur Baumruk skoruðu allir þrjú mörk hver.

Dagur Gautason skoraði sex mörk fyrir Stjörnuna og Sverrir Eyþórsson var með fimm mörk.

Afturelding vann 29-28 sigur á FH eftir að hafa verið 15-13 yfir í hálfleik.

Bergvin Þór Gíslason, Birkir Benediktsson og Gunnar Malquist Þórsson voru allir markahæstir í Mosfellsliðinu með sex mörk hver. Birgir Már Birgisson skoraði sex mörk fyrir FH en Ásbjörn Friðriksson og Einar Rafn Eiðsson voru með fjögur mörk hvor.

Í kvöld mætast svo FH og Stjarnan klukkan 17.45 og Haukar og Afturelding klukkan 20.30. Báðir leikir verða sýndir beint á HaukarTV en þar má einnig sjá leikina frá því í gær. Leikir gærdagsins eru hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×