Beta Nordic Studios, dótturfyrirtæki Beta Film í Þýskalandi hefur keypt 25 prósenta hlut í Sagafilm.
Í tilkynningu frá Sagafilm segir að Beta Film starfi jafnt við framleiðslu, dreifingu og fjármögnun hágæða kvikmynda- og sjónvarpsverkefna, verið stofnað árið 1959 af Leo Kirch og sé með höfuðstöðvar í München í Þýskalandi. Þá eru starfræktar skrifstofur víða um heim.
„Með Beta Nordic Studios í hluthafahópi Sagafilm eykst til muna aðgengi að alþjóðadreifingu fyrir kvikmynda- og sjónvarpsefni Sagafilm, auk þess sem þetta er staðfesting á stöðu og árangri Sagafilm á alþjóðamörkuðum undanfarin misseri. Tilgangur þessara kaupa er að efla vöxt Sagafilm enn frekar á þeim mörkuðum.
Kaupin eru að fullu frágengin en kaupverðið er trúnaðarmál. Fulltrúar Beta Nordic Studios taka sæti í stjórn félagsins og ekki er gert ráð fyrir að neinar breytingar verði á starfsemi Sagafilm, sem er elsta kvikmyndaframleiðslufyrirtæki landsins, stofnað árið 1978.
Framkvæmdastjóri Beta Nordic Studios er Martin Håkansson. Hann mun setjast í stjórn Sagafilm, ásamt Justus Riesenkampff, yfirmanni Norðurlandamála hjá Beta Film.
Sagafilm er þriðja fyrirtækið á Norðurlöndunum sem Beta Nordic Studios kaupir hlut í, en áður hefur félagið keypt hluti í Fisher King í Finnlandi og í Dramacorp í Svíþjóð. Öll fyrirtækin hafa það að markmiði að framleiða hágæða kvikmyndaefni fyrir sjónvarp og kvikmyndadreifingu,“ segir í tilkynningunni.
Ragnar Agnarsson verður áfram stjórnarformaður Sagafilm og er haft eftir honum að velta félagsins hafi rúmlega tvöfaldast á innan við þremur árum og séu enn meira spennandi tímar framundan.
Eigendur Sagafilm eru KPR ehf. og HilGun ehf. og nú Beta Nordic Studios. Félagið velti 2,3 milljörðum á árinu 2019.