Það kom ekki mikið á óvart að ungstirnin Phil Foden og Masen Greenwood hafi verið á forsíðum margra enska fjölmiðla eftir skandalinn sem komst upp í gær.
Í frétt 433.is í gær kom fyrst fram að Foden og Greenwood hafi fengið heimsóknir frá ungum íslenskum stúlkum upp á hótelherbergi, á meðan þeir voru í svokallaðri vinnusóttkví hér á landi í kringum landsleik Íslands og Englands.
Enskir fjölmiðlar eru ekki vanir að taka vægt á hlutunum og þegar svona stórir atburðir gerast eins og í gær þá eru duglegir að fjalla um þá. Á því varð engin undantekning er blöðin komu út í morgun.
„Heimskur og heimskari,“ sagði m.a. í blaði Daily Star í morgun. „Heimskingjarnir ykkar,“ skrifaði Daily Express og Daily Mail tók í svipaðan streng.
„Sparkað út með skömm,“ sagði í frétt Mirror en brot af nokkrum fyrirsögnum enskra fjölmiðla frá því í morgun má sjá hér að neðan.
England mætir Danmörku á útivelli í Þjóðadeildinni í kvöld á meðan Ísland mætir Belgíu í Belgíu. Báðir leikirnir eru í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kvöld og hefjast leikar 18.45.
Upphitun fyrir leik Belgíu og Íslands hefst klukkan 18.00.



