The Last Dance, heimildaþáttaröðin um tímabilið 1997-98 hjá Chicago Bulls, fékk Emmy-verðlaun í flokki heimildaþátta eða efnis byggðu á sannsögulegum atburðum. Emmy-verðlaunahátíðin fór fram með óhefðbundnu sniði í nótt vegna kórónuveirufaraldursins.
The Last Dance won an Emmy
— ESPN (@espn) September 20, 2020
Best Documentary or Nonfiction Series pic.twitter.com/skCbn2UkS9
ESPN framleiddi The Last Dance þar sem fylgst er með Michael Jordan og félögum í Chicago Bulls tímabilið 1997-98. Í The Last Dance er einnig farið yfir feril Jordans sem er miðpunktur þáttaraðarinnar.
Í The Last Dance var mikið af áður óséðu efni sem Jordan gaf loksins leyfi fyrir að nota. Einnig var rætt við persónur og leikendur á blómaskeiði Chicago Bulls á 10. áratug síðustu aldar.
Auk The Last Dance voru American Masters, Hillary, McMillion$ og Tiger King tilnefnd í flokki heimildaþátta eða efnis byggðu á sannsögulegum atburðum. Þetta er í fyrsta sinn sem ESPN vinnur Emmy-verðlaun í þessum flokki.
The Last Dance fékk mikið áhorf enda voru þættirnir sýndir þegar keppni í nánast öllum íþróttum lá niðri vegna kórónuveirufaraldursins.
Mikið gekk á tímabilið 1997-98 hjá Chicago Bulls sem var það síðasta hjá Jordan, Scottie Pippen og þjálfaranum Phil Jackson hjá félaginu. The Last Dance heitið er komið frá Jackson sem vissi að tímabilið 1997-98 yrði hans síðasta hjá Chicago Bulls.
Jordan tryggði Chicago Bulls sjötta meistaratitilinn á átta árum með sigurkörfu í leik gegn Utah Jazz í Salt Lake City. Chicago Bulls vann einvígið, 4-2.